Hafa Samband

Lög FÍF

I.KAFLI.

Um nafn, heimili, varnarþing og tilgang.

1. gr.

Félagið heitir Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda, skammstafað FÍF. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félagsins er:

Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fiskmjölsframleiðenda á Íslandi og vera málsvari þeirra út á við.

Að beita sér fyrir að félagsmenn hafi samvinnu sín á milli um ýmis atriði er varða bætta afkomu fiskmjölsiðnaðarins.

Að koma á framfæri við stjórnvöld og almenning afstöðu félagsins til þeirra mála er varða hagsmuni félagsmanna og fylgja þeim fram.

Að tryggja að réttur félagsmanna sé ekki fyrir borð borinn, hvorki af löggjafarþingi né öðrum.

Að fylgjast með breytingum sem verða á löggjöf annarra þjóða hvað varðar fiskmjölsiðnaðinn og gæta hagsmuna íslenskra fiskmjölsverksmiðja að því er varðar samkeppnisstöðu, samninga og samskipti Íslands og annarra ríkja eða ríkjabandalaga.

Að taka þátt í alþjóða samstarfi fiskmjölsframleiðanda m.a. með aðild að erlendum samtökum fiskmjölsframleiðenda

II. KAFLI.

Aðild að félaginu.

3. gr.

Um inngöngu í félagið geta sótt öll starfandi einkafyrirtæki, félög eða sjálfseignarstofnanir sem framleiða fiskmjöl og fisklýsi. Umsókn um inntöku í FÍF skal senda skriflega til stjórnar félagsins ásamt upplýsingum um stjórn, stjórnendur, launagreiðslur, veltu og framleiðsumagn á mjöl og lýsi undanfarin tvö ár . Inntökubeiðni telst samþykkt ef meirihluti stjórnar samþykkir hana. Skjóta má synjun á inntökubeiðni til aðalfundar eða félagsfundar.

III. KAFLI.

Úrsögn og brottvikning.

4. gr.

Heimilt er félagsmanni að segja sig úr félaginu frá áramótum að telja með minnst sex mánaða fyrirvara. Úrsögn skal vera skrifleg og afhendast framkvæmdastjóra sem skal gefa skriflega viðurkenningu við móttöku hennar. Úrsögn eða brottvikning leysir ekki aðilda undan greiðslu félagsgjalda eða annarra skuldbindinga sem á honum kunna að hvíla.

5. gr.

Stjórn FÍF er heimilt að víkja aðildarfyrirtæki úr félaginu vegna vanskila eða annara brota gegn lögum þessum. Til þess að brottvikning öðlist gildi skal stjórnin boða til félagsfundar þar sem ástæður fyrir brottvikningu eru greindar. Samþykki þrír fjórðu hlutar fundarmanna brottvikningu telst hlutaðeigandi fyrirtæki vera vikið úr félaginu. Stjórninni er heimilt að taka af félagaskrá þau fyrirtæki sem hafa ekki greitt árgjöld sín til samtakanna í tvö ár eða lengur eða eru hætt störfum.

V. KAFLI

Aðalfundur

7. gr.

Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en 31. maí ár hvert og skal boða til hans með minnst þriggja vikna fyrirvara með tilkynningu til sérhvers félagsmanns. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Formaður FÍF setur aðalfund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.

8. gr.

Á aðalfundi skal taka fyrir eftirfarandi mál:

Formaður gerir grein fyrir starfsemi félagsins á liðnu starfsári.

Reikningar félagsins fyrir liðið reikningsár lagðir fram til samþykktar.

Kosning stjórnar og endurskoðanda eða skoðunarmanns

Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur mál, sem borin hafa verið fram með löglegum hætti.

Um aðalfund fer að öðru leyti eftir VII. kafla.

VI. KAFLI

Stjórn og framkvæmdastjóri

9. gr.

Stjórn félagsins skipa ellefu menn og skulu þeir kosnir í atkvæðagreiðslu á aðalfundi. Stjórnarmenn eru kosnir til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs formann, varaformann og ritara úr sínum hópi.

10. gr.

Stjórnin heldur fundi, þegar formanni þykir við þurfa en auk þess er honum skylt að boða til fundar þegar þrír stjórnarmenn krefjast þess. Stjórnarfundur er því aðeins lögmætur að minnst sex af stjórnarmönnum sæki fundinn Framkvæmdastjóri hefur rétt til setu á fundum stjórnar með málfrelsi og tillögurétt. Gerðir stjórnarfunda skal bóka í gerðabók félagsins. Stjórnin ræður öllum félagsmálum milli aðal funda. Stjórnin tekur til meðferðar öll mál, sem geta ekki talist dagleg afgreiðslustörf félagsins. Þau störf felur stjórnin framkvæmdastjóra að annast um, auk annarra framkvæmdastarfa, að svo miklu leyti sem stjórnin telur hentugt á hverjum tíma.

11. gr.

Stjórn FÍF ræður framkvæmdastjóra félagsins og setur honum starfsreglur. Framkvæmdastjóri annast dagleg starfsemi félagsins í samráði við stjórn. Hann sér um innheimtu félagsgjalda, allt reikningshald og afgreiðslu og undirbúning mála.

VII. KAFLI.

Félagsfundir

12. gr.

Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málum félagsins innan þeirra marka, sem lög þessi setja. Rétt til að sækja félagsfundi og fara með atkvæði þar hafa stjórnendur aðildarfyrirtækja eða umboðsmenn þeirra. Heimild til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti hafa starfsmenn FÍF og aðildarfélaga þess auk gesta. Félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins þykir þurfa, eða þegar þess er krafist fyrir hönd félagsmanna, sem hafa umráð yfir minnst 1/5 hluta af atkvæðum félagsmanna, enda komi jafnframt fram hvers vegna fundar er krafist. Kröfu um félagsfund skal senda stjórn félagsins og ber henni að boða til fundarins innan viku frá því að lögmæt krafa um félagsfund kom fram.

13. gr.

Félagsfundi skal boða með tilkynningu til sérhvers aðildarfyrirtækis með minnst einnar og mest tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega getið þeirra mála, sem taka skal fyrir á fundinum. Heimilt er þó á fundi að taka fyrir og leiða til lykta málefni, sem eigi er getið í fundarboði, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum, enda sé það samþykkt með 3/4 hlutum greiddra atkvæða fundarmanna. Fundur, sem boðað hefur verið til með löglegum hætti, er lögmætur, án tillits til þess hve margir sækja hann, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

14. gr.

Hverjum fundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Fundarstjóri tilnefnir fundarritara úr hópi fundarmanna. Atkvæðagreiðsla skal jafnan vera skrifleg, ef einhver atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess.

15. gr.

Á félagsfundum hafa félagsmenn atkvæðisrétt sem hér segir: Eitt atkvæði fylgir hverjum 100 tonnum af framleiðslu eða minna magni. Skrifstofa félagsins skal við hver áramót semja skýrslu yfir atkvæðamagn hvers félagsmanns og gildir skýrslan að þessu leyti allt árið. Félagsmenn mega fela þeim, sem geta sótt félagsfundi samkvæmt 12. gr., að fara með atkvæði sín. Fundarstjóri getur krafist skriflegs umboðs.

16. gr.

Í gerðabók félasins skal rita stutta skýrslu um það sem gerist á félagsfundum. Fundarstjóri og fundarritari undirrita síðan fundargerðina.

VIII. KAFLI

Ársreikningar

17. gr.

Starfsár félagsins og reikningsár er almanaksárið. Endurskoðandi eða skoðunarmaður skulu kosnir á aðalfundi. Þeir skulu endurskoða reikninga félagsins fyrir yfirstandandi ár, kanna sjóði þess í árslok og gera athugasemdir sínar til stjórnar félagsins.

18. gr.

Fyrir lok febrúarmánaðar ár hvert skal skrifstofa félagsins hafa lokið við ársreikninginn fyrir liðið starfsár og sent hann endurskoðanda eða skoðunarmanni. Viku fyrir aðalfund skulu yfirfarnir og áritaðir ársreikningar liggja fyrir á skrifstofu FÍF félagsmönnum til kynningar.

IX. KAFLI.

Ýmis ákvæði

19. gr.

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði, að breytingar á lögunum yrði til meðferðar á fundinum. Breytingar þarf að samþykkja með 2/3 hlutum greiddra aðkvæða að minnsta kosti.

20. gr.

Þyki rétt og nauðsynlegt að leggja FÍF niður, fer um tillögur þar að lútandi eins og um lagabreytingar, sbr. 22. gr. Fundur sá sem samþykkir löglega að leggja FÍF niður, kveður einnig á um ráðstöfun eigna þeirra og skulda.

21. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi eldri lög Félags íslenskra fiskmjölframleiðenda. Til staðfestu er undirritun stjórnar FÍF.

Þannig samþykkt á aðalfundi FÍF 28. mars 2014.