VII. KAFLI.
Félagsfundir
12. gr.
Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málum félagsins innan þeirra marka, sem lög þessi setja. Rétt til að sækja félagsfundi og fara með atkvæði þar hafa stjórnendur aðildarfyrirtækja eða umboðsmenn þeirra. Heimild til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti hafa starfsmenn FÍF og aðildarfélaga þess auk gesta. Félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins þykir þurfa, eða þegar þess er krafist fyrir hönd félagsmanna, sem hafa umráð yfir minnst 1/5 hluta af atkvæðum félagsmanna, enda komi jafnframt fram hvers vegna fundar er krafist. Kröfu um félagsfund skal senda stjórn félagsins og ber henni að boða til fundarins innan viku frá því að lögmæt krafa um félagsfund kom fram.
13. gr.
Félagsfundi skal boða með tilkynningu til sérhvers aðildarfyrirtækis með minnst einnar og mest tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega getið þeirra mála, sem taka skal fyrir á fundinum. Heimilt er þó á fundi að taka fyrir og leiða til lykta málefni, sem eigi er getið í fundarboði, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum, enda sé það samþykkt með 3/4 hlutum greiddra atkvæða fundarmanna. Fundur, sem boðað hefur verið til með löglegum hætti, er lögmætur, án tillits til þess hve margir sækja hann, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.
14. gr.
Hverjum fundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Fundarstjóri tilnefnir fundarritara úr hópi fundarmanna. Atkvæðagreiðsla skal jafnan vera skrifleg, ef einhver atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess.
15. gr.
Á félagsfundum hafa félagsmenn atkvæðisrétt sem hér segir: Eitt atkvæði fylgir hverjum 100 tonnum af framleiðslu eða minna magni. Skrifstofa félagsins skal við hver áramót semja skýrslu yfir atkvæðamagn hvers félagsmanns og gildir skýrslan að þessu leyti allt árið. Félagsmenn mega fela þeim, sem geta sótt félagsfundi samkvæmt 12. gr., að fara með atkvæði sín. Fundarstjóri getur krafist skriflegs umboðs.
16. gr.
Í gerðabók félasins skal rita stutta skýrslu um það sem gerist á félagsfundum. Fundarstjóri og fundarritari undirrita síðan fundargerðina.